Hið nýja framleiðslukerfi mun tryggja hraðari vinnslutíma afurða, meðal annars með noktun róbóta og algríms.
Fiskkaup hf. og hátæknifyrirtækið Valka efh. undirrituðu á dögunum samning um kaup á hátækni framleiðslukerfi fyrir vinnslu Fiskkaupa við Fiskislóð í Reykjavík. Nýja hátæknivinnslukerfið gerir Fiskkaupum kleift að auka sveigjanleika og fjölbreytni í afurðum ásamt því að bæta alla helstu lykil árangurþætti sem þekkjast í fiskvinnslum.
Kerfið sem um ræðir inniheldur þekktar lausnir eins og heilfiskflokkun í bland við nýja tækni eins og vatnsskurðarvél með þrívíddar-röntgenmyndgreiningu og beingarðsfjarlægingu. Jafnframt er notkun róbóta áberandi í kerfinu eins og í pökkunarlausn Völku, Aligner Packing Robot, sem er mikilvægur hluti fyrir heildarvirkni kerfisins.
Kerfið er sérstaklega hannað með gott línulegt flæði í huga sem tryggir hraðan vinnslutíma afurða og viðheldur gæðum þeirra í gegnum vinnsluferlið. Mikil áhersla er lögð á gott vinnurými fyrir starfsfólk og saman skilar þetta verðmætari framleiðslu með sömu starfskröftum.

Algrím stjórna skurðarmynstrum og pökkun
Samhliða uppsetningu á tækjunum mun Fiskkaup innleiða RapidFish, allsherjar framleiðslustjórnunarkerfi frá Völku, sem tengist öllum þeim tækjabúnaði sem notaður í vinnslunni sem og öðrum kerfum svo sem bókhaldskerfum. Í kerfinu er mögulegt að setja inn helstu breytur sem hámarka afkomu með notkun fullkominna algríma sem besta skurðarmynstur og pökkun afurða.
„Fiskkaup hefur fylgst grannt með þeirri tæknivæðingu í fiskvinnslunni og þeirri framþróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Við ætlum í fullvinnslu afurða, jafnvel alla leið í neytendapakkningar. Það er okkar mat að kerfið frá Völku gefi okkur bestu möguleikana á að ná framþróun í afköstum, gæðum og nýjum afurðum sem er nauðsynlegt. Með þessum kaupum erum við ekki aðeins að stíga skref inn í nútímann heldur búa okkur undir framtíðina,“ er haft eftir Ásbirni Jónssyni, framkvæmdastjóra Fiskkaupa, í fréttatilkynningu.
„Við erum afskaplega þakklát og ánægð með að fá að vinna þetta metnaðarfulla verkefni með eins rótgrónu framleiðslufyrirtæki og Fiskkaupum. Fiskkaup hefur ákveðna sérstöðu í sínu vöruframboði og við lögðum mikla vinnu í að stilla upp heildarkerfi sem myndi henta þeirra þörfum og skila sem mestum ávinningi. Gögn frá hverju tæki fyrir sig geta verið mikilvæg fyrir ákvarðanir seinna í ferlinu. Rapidfish framleiðslutjórnunarkerfið bindur þessi gögn saman, stýrir ferlinu og getur tekið ákvarðanir sem eru manninum ómögulegt. Þannig skapast aukinn ávinningur í heildarkerfinu,“ segir Guðjón Ingi Guðjónsson, sölustjóri hjá Völku.
Frétt endurbirt með leyfi frá Viðskiptablaðinu.
https://www.vb.is/frettir/fiskkaup-kaupir-vinnslukerfi-fra-volku/163238/