SAGAN

Brautryðjendur í útflutningi

Fiskkaup er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1983 af Jóni Ásbjörnssyni. Af samfélagslegri ábyrgð leggur fyrirtækið höfuðáherslu á ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar í sátt við umhverfið.

Sögu fyrirtækisins má rekja aftur til 1950 en Jón, stofnandi Fiskkaupa hafði áður rekið fiskbúð og grásleppuverkun í áraraðir við Reykjavíkurhöfn með föður sínum, Ásbirni Jónssyni. Í dag er fyrirtækið rekið af þriðju kynslóð fjölskyldunnar en Ásbjörn, sonur Jóns Ásbjörnssonar er framkvæmdarstjóri fyrirtækisins. Fjórða kynslóð er nú þegar starfandi hjá fyrirtækinu.

Meginmarkmið Fiskkaupa í upphafi var að kaupa fisk af bátum og salta eða senda ferskan til fiskmarkaða í Bretlandi. Möguleiki á útflutningi hafði þá nýlega opnast og átti Jón Ásbjörnsson, stofnandi Fiskkaupa frumkvæðið að því.

Um 1988 fékk fyrirtækið fyrst allra leyfi til að selja eigin saltfiskafurðir fram hjá SÍF sem hafði haft einokun fram að því. Leyfið takmarkaðist fyrst við sölu saltfisksflaka á Spáni sem gaf Fiskkaupum verulegt samkeppnisforskot umfram önnur fyrirtæki þar sem hærra verð fékkst fyrir fiskinn.

Fyrirtækið óx mjög hratt í kjölfar þessa og var komið með útibú í Ólafsvík, Grímsey og á Patreksfirði með yfir 100 manns í vinnu um 1993. Sama ár keypti Fiskkaup hf. 2.500 fermetra húsnæði Ríkisskipa við Reykjavíkurhöfn og breytti því í fiskverkun.

Vegna minnkandi kvóta og aukinnar samkeppni um hráefnið upp úr 1995 var ákveðið að sameina alla fiskvinnslu Fiskkaupa á einum stað í Reykjavík árið 1996. Fiskkaup hóf útgerð árið 1994 með kaupum á línubátnum Alberti Ólafssyni frá Keflavík. Með útgerðinni varð reksturinn ekki eins háður innlendum fiskmörkuðum um hráefni sem þýddi jafnframt meiri stöðugleika í vinnslunni. Árið 2008 festi fyrirtækið svo kaup á stærra línuskipi sem fékk nafnið Kristrún, en „gamla Kristrún“ fékk nafnið Kristrún II.

Velta og hagnaður Fiskkaupa hefur aukist jafnt og þétt síðustu ára og hefur afkoman verið góð. Veltan nam rúmlega 3,4 milljörðum króna árið 2018. EBIDTA var 522 milljónum og var hagnaður eftir skatt 266 milljónir.

Ábyrgar og sjálfbærar fiskveiðar

Fiskkaup stundar ábyrgar fiskveiðar. Markmið Fiskkaupa er að stunda ábyrgar veiðar úr fiskistofnum á Íslandsmiðum og stuðla að sem bestri sátt við lífríki hafsins og umhverfið. Fyrirtækið hefur þá trú að mikilvægt sé að viðhalda heilbrigði vistkerfi fyrir komandi kynslóðir. Þá eru umhverfisvæn veiðarfæri notuð við veiðarnar og er eingöngu notaður línuveiddur fiskur við framleiðsluna. Fiskkaup vinnur samkvæmt HACCP gæðastöðlum.

Fiskkaup hafa hlotið MSC vottun vegna veiða og framleiðslu á afurðum úr þorski en MSC staðallinn er sá víðtækasti og virtasti í heiminum fyrir sjálfbærar fiskveiðar. Fiskkaup eiga og gera út línu- og netaskipið Kristrúnu RE-177 og krókaaflsmarksbátanna Jón Ásbjörnsson RE-777 og Höllu Daníelsdóttur RE-770.

Grálúðuveiðar hafa verið hornsteinninn í rekstri fyrirtækisins síðustu ár. Afl skipa félagsins á fiskveiðiárinu 2018-2019 var um 7.500 þoskígildistonn en af þessum 7.500 þoskígildistonnum er um 6.700 tonn Grálúða. Línu- og netaskipið Kristrún RE-177 hefur verið gerð út allt árið og hafa veiðarnar gengið vel og afli um 2.000 tonn ári.

Aðsetur Fiskkaupa er á Fiskislóð 34 við Reykjavíkurhöfn og starfrækir fyrirtækið fullkomna fiskvinnslu sérhannaða fyrir starfsemina í nýjum húsakynnum. Fyrsta flokks aðstaða með nýjustu tækni tryggir bestu möguleg gæði og stöðugleika allt árið um kring.

Gott starfsfólk lykillinn að gæðavöru

Hjá Fiskkaupum starfa um 80 manns. Starfsmannaveltan er lítil og starfsaldur hár en meðal starfsaldur skrifstofufólks Fiskkaupa er um 18-19 ár. Mikið er lagt upp úr þjálfun starfsfólk og um leið að aðbúnaður þess sé sem bestur. Gott starfsfólk skiptir höfuðmáli í framleiðslu gæðavara og leggur því Fiskkaup mikinn metnað í að ráða til sín gott starfsfólk.